Leiðarljós okkar í leikskóla LFA ehf. Fossakoti og Korpukoti er að skila til þjóðfélagsins námsfúsum og lífsglöðum börnum, með jákvætt viðhorf til samfélagsins. Börnum með sterka sjálfsmynd og heilbrigða siðferðiskennd. Börnum sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og samfélaginu. Einkunnarorð leikskólans er „Það er leikur að læra“.
Lífsgildin
Rauði þráðurinn í starfi leikskólans er Lífsgildablóm, þar sem laublöð þess geyma lífsgildin. Þetta eru vinátta, virðing, hjálpsemi, kurteisi og samkennd. Hvert lífsgildi ræktum við með okkur tvo mánuði í senn. Á því tímabili sem hvert lífsgildi er tekið fyrir er krónublaði snúið við og í ljós kemur hvaða lífsgildi verður lögð höfuðáhersla á, á því tímabili.
Nýtt lífsgildi er afhjúpað í sameiginlegri söngstund og innleidd eru lög í barnahópinn sem innihalda þau hugtök sem við vinnum með hverju sinni. Við leggjum áherslu á lífsgildin markvisst með börnum leikskólans í samverustundum þar sem börnin geta tjáð sig og sínar skoðanir um hvað hvert lífsgildi felur í sér. Einnig rúmast lífsgildin innan allra námssviða, tækifærin eru allstaðar. Á ungbarnadeildum eru lífsgildin lögð inn í daglegum samskiptum eins og aldurssvarandi þroski og geta leyfir. Eftir því sem börnin þroskast yfirfæra þau þekkingu sína og hugtakaskilning lífsgildatrésins í félagsleg samskipti sín á milli og almennt.
Vinátta
Árið 2020 byrjaði Korpukot að vinna með Vináttuverkefni Barnaheilla um bangsann Blæ og flokkast leikskólinn því sem vináttuleikskóli. Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti sem er ætlað leikskólum, fyrstu bekkjum grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum.
Táknmynd verkefnisins er bangsinn Blær og hann hvetur börnin til þess að vera góðir vinir, sýna umhyggju, virðingu, hugrekki og umburðarlyndi. Hann hjálpar börnunum líka í að skilja tilfinningar sínar og annarra. Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að efla góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvætt viðhorf til allra í leikskólanum.
Þegar unnið er með verkefni er gert ráð fyrir að hvert barn eigi lítinn Blæ-bangsa sem á heima í leikskólanum. Börnin munu geta notað hann til að leita eftir huggun, til að þjálfa samskipti og margt fleira.
Foreldrafélag Korpukots styrkir Vináttuverkefni Barnaheilla með kaupum á bangsa fyrir hvert barn
Hér er hægt að lesa meira um Vináttuverkefni Barnaheilla

Málstarf
Rík áhersla er lögð á málstarf á öllum deildum leikskólans og er unnið að því að dýpka orðaforða og skilning barnanna í daglegu starfi með markvissum leiðum málörvunar, bókalestri, vísum, þulum, söng og leik.
Lubbi
Um leið og barn hefur leikskólagöngu sína er unnið með kennsluefnið „Lubbi finnur málbeinið“ í skipulögðum Lubbastundum sem fara fram einu sinni í viku. Í þeim syngja börnin um málhljóðin með Lubba, en hver deild hefur til umráða sinn eigin Lubba-bangsa sem nýttur er í þessum stundum. Í bókinni um Lubba er hvert hljóð táknað með litlum og stórum bókstaf. Unnið er með hljóðin í þrívídd þ.e. sjónskyn, heyrnaskyn og hreyfi- og snertiskyn. Með því er verið að æfa börnin í að tileinka sér íslensku málhljóðin og brúa bilið milli stafs og hljóðs sem að lokum kemur börnum á sporið í lestri og ritun. Lubbaefnið gefur færi á ótal skemmtilegum og fjölbreyttum leikjum sem ýta undir hljóðanám, stafa-hljóðaþekkingu, hljóðavitund og fleiri undirstöðuþætti fyrir lestrarnám.
Hér er hægt að kynnast Lubba enn betur

TRAS
TRAS (n: Tidlig registrering af språkudvikling), er skráningarlisti til notkunar fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna. Listinn er upprunalega kominn frá sérfræðingum við norskan háskóla og sérkennslustofnanir og er notkun hans nú orðin útbreidd á Norðurlöndum. Góður málþroski skiptir miklu máli fyrir andlegan þroska barna, félagslega líðan og seinni lestrartileinkun. Með TRAS skráningunni er hægt að skima eftir frávikum í mál- og félagsþroska barnanna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga.
Á eldri deildum leikskólans er unnið með málþroskann í víðari skilningi og er þá félagsþroskinn efldur um leið. Leikskólinn vinnur með skráningarlistann TRAS og út frá honum hefur verið skipulagt málstarf þar sem unnið er með framburð, orðaforða, setningamyndun, athygli, einbeitingu, samleik, félagsfærni, málskilning og málvitund. Öll börn fara í svokallaðar TRAS – vinnustundir einu sinni í viku þar sem þau fá þjálfun í þessum þáttum í gegnum leik og spil. Eftir að henni lýkur skráir starfsmaður þroskaframfarir allra barnanna. Þannig eru gerða skráningar á öllum börnum einu sinni í viku.
Tras-stundir eru notalegar, skemmtilegar og fullar af fjöri

Hópastarf
Á öllum deildum leikskólans er börnum skipt upp í minni hópa eftir aldri og getu og á hver hópur sinn hópstjóra, þessi hópaskipting auðveldar okkur yfirsýn og eykur öryggistilfinningu barnanna. Við höfum lært og erum sannfærð um að börn sem eru saman í hóp læra að þekkja hvort annað og treysta hvort öðru, það er grundvöllur fyrir góðu samstarfi, traustri vináttu og aukinni öryggistilfinningu
Á eldri deildum leikskólans er unnið með það sem kallast hópastarf, þ.e. þemastarf í þessum hópum. Þemun eru mörg og fjölbreytt en þar má meðal annars nefna Leikskólinn minn, Vinátta og samskipti, Tilfinningar, Líkaminn minn, Hreyfing og hreysti, Húsdýrin og fleira.
Þegar unnið er með þema er miðað að því að víkka orðaforða barnanna, að þau læri ýmislegt tengt þemanu, föndri hluti, ræði um, lesi bækur og syngi lög. Hópastarfið í leikskólanum okkar snýst um upplifun og að læra að reynslunni. Þess vegna fylgir ekki endiega föndur hverju þema heldur einbeitum við okkur að upplifunni í staðinn fyrir afurðinni
